Írski barnabókahöfundurinn Eoin Colfer hefur fengið það verkefni að skrifa sjöttu bókina í trílógíunni Hitchhiker's Guide to the Galaxy sjö árum eftir andlát höfundarins Douglas Adams sem skrifaði fimm fyrstu bækurnar og mun hafa haft þá sjöttu í smíðum er hann féll frá 49 ára að aldri.
Colfer er frægastur fyrir ævintýrabækur sínar um Artemis Fowl en hann mun taka upp þráðinn í sögunum um Arthur Dent og félaga og samkvæmt Reuters fréttastofunni er það gert með samþykki Jane Belson, ekkju Adams.
Bókin mun koma út hjá Penguin-útgáfunni í október á næsta ári. Adams á að hafa sagt að fimm (bækur) væri bara ekki rétt tala, sex væri mun betri tala.