Van Morrison hefur bannað aðdáendum sínum að neyta áfengis á tónleikum hjá sér. Hann átti við alvarlegan áfengisvanda að etja á áttunda og níunda áratugnum og er nú algjör bindindismaður. Segir hann áfengisneyslu áhorfenda geta truflað tónlistarflutninginn.
Tónleikarnir fara fram annað kvöld í Sussex í Bretlandi. Hefur hann farið fram á það við skipuleggjendur tónleikanna að ekkert áfengi verði selt fyrir þá og á meðan þeim stendur.
Van Morrison, sem er 63 ára og alræmdur skaphundur, hefur áður látið þau orð falla að sér sé misboðið þegar áheyrendur eru á ferli á meðan tónleikum stendur, því að sér finnist þeir eiga að sitja kyrrir og njóta hverrar nótu.