Nokkur atriði í kvikmynd Bítlanna, Magical Mystery Tour frá árinu 1967, voru tekin á Íslandi. Þetta kemur fram í viðtali við trommuleikarann Ringo Starr í heimildarmyndinni The Beatles Anthology sem gefin var út árið 1995. Líklegt verður að teljast að atriðin sem Ringo talar um í myndinni hafi verið fengin að láni úr kvikmyndinni Dr. Strangelove sem Stanley Kubrick gerði árið 1964.
Í ævisögu Pauls McCartneys, Many Years From Now, sem Barry Miles skrifaði og var gefin út árið 1997, kemur fram að skot sem notuð voru í myndinni hafi verið afgangsskot úr kvikmynd Kubricks. Í kaflanum um Magical Mystery Tour segir meðal annars:
„Fyrir sönglausu flugskotin var ákveðið að nota skot úr lofti, ský og landslag séð ofan frá. Framleiðandi myndarinnar, Denis O'Dell, sem síðar varð yfirmaður Apple kvikmynda, var að vinna fyrir Apple á þessum tíma. Hann hafði meðal annars unnið að gerð Dr. Strangelove sem Stanley Kubrick gerði árið 1963, og mundi að fyrir þá mynd höfðu nokkrir klukkutímar af myndum úr lofti verið teknir yfir norðurheimskautinu, til þess að nota með þeim atriðum þar sem B-52 sprengjuflugvél flýgur með kjarnorkusprengju til þess að varpa á Rússland. O'Dell sagði við Paul: „Ég get reddað ykkur nokkrum skotum“ og gerði það svo. Þeir klipptu þessi skot saman og lituðu þau til þess að gera þau ólík Dr. Strangelove.“