Kryddpíurnar komu, sáu og sigruðu á breskri tónlistarhátíð í gær, en endurkoma þeirra á stóra sviðinu þótti bera af sl. ár. Píurnar skutu þar með gömlu rokkjöxlunum í Led Zeppelin ref fyrir rass. Gömlum rokkurum væntanlega til hneykslunar og undrunar.
Kvennasveitin hlaut verðlaun á Vodafone Live Music Awards fyrir bestu endurkomuna á tónleikum. Auk Zeppelin og Kryddpíanna voru bresku sveitirnar James og The Verve tilnefndar.
Töffararnir í Primal Scream hlutu tvenn verðlaun. Þeir þóttu bestir á tónleikum og þeir voru verðlaunaðir fyrir frábært tónlistarframlag þeirra á hljómleikum.
Hátíðin fór fram í Brixton Academy og meðal þeirra hljómsveita sem tróðu upp voru popparar á borð við The Pussycat Dolls, Will Young og James Morrison og indí-sveitirnar Glasvegas, The Automatic og Primal Scream.