Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, er nú að fara í hönd og hefst 25. september næstkomandi og stendur til 5. október. Þetta er í fimmta sinn sem hátíðin er haldin og fer hún vaxandi ár hvert. Á heimasíðu hátíðarinnar www.riff.is, er hægt að lesa sér til um myndirnar sem sýndar verða og höfunda þeirra.
Margt áhugavert er á dagskrá og er þetta kjörið tækifæri fyrir kvikmyndaunnendur til að sjá þverskurð mynda víða að í heiminum. Erlendar verðlaunamyndir í fullri lengd skipa flokk sem kallast Fyrir opnu hafi og gefur þar að líta myndir sem í mörgum tilfellum yrðu ekki sýndar á Íslandi ef hátíðarinnar nyti ekki við. Einnig verður sýndur fjöldi stutt- og heimildamynda, íslenskar sem og erlendar. Af íslenskum myndum má nefna myndina Rafmögnuð Reykjavík sem er heimildamynd eftir Arnar Jónasson og stuttmyndirnar Smáfugla eftir Rúnar Rúnarsson og Allir mættir eftir Maríu Guðmundsdóttur svo eitthvað sé nefnt. Sýningar fara fram í Regnboganum, Iðnó og Norræna húsinu. Passi á allar myndir hátíðarinnar kostar 7000 kr en einnig er hægt að kaupa staka miða. Ýmislegt fleira er á dagskrá í tengslum við hátíðina svo sem umræður við höfunda og aðstandendur myndanna sem sýndar eru og tónleikar. Einnig verður hægt að fara bílabíó í Kringlunni 28. september.
Sigurmynd hátíðarinnar hlýtur titilinn „Uppgötvun ársins“ og Gullna lundann að launum. Við lok hátíðarinnar verða einnig veitt áhorfendaverðlaun við skemmtilega athöfn, en fólk getur greitt atkvæði sitt á mbl.is.