Kvikmyndin Mamma Mia!, sem byggð er á samnefndum söngleik með lögum ABBA, er tekjuhæsta kvikmynd allra tíma í íslenskum kvikmyndahúsum, frá því SMÁÍS (Samtök myndrétthafa á Íslandi) hófu að taka saman tölur yfir miðasölu og aðsókn að kvikmyndum í íslenskum kvikmyndahúsum árið 1995. Tekjur af Mamma Mia! námu í gær tæplega 92.3 millj. kr. skv. úttekt SMÁÍS, en fyrra tekjumet Mýrarinnar var 90,6 milljónir króna.
Mamma Mia! hefur verið sýnd í 11 vikur hér á landi og samkvæmt nýjustu tölum hafa rúmlega 106 þúsund aðgöngumiðar verið seldir á hana. Sú kvikmynd sem mesta aðsókn hefur fengið á Íslandi til þessa er Með allt á hreinu, um 125.000 sáu hana á sínum tíma að sögn framleiðanda hennar, Jakobs Frímanns Magnússonar.