Sýningin The Music of ABBA með sænsku hljómsveitinni Arrival verður sett upp hér á landi í Vodafone-höllinni 8. nóvember nk. Arrival hefur ferðast með ABBA-sýninguna í þrettán ár og sýnt í yfir 20 þjóðlöndum.
Hljómsveitin Arrival, sem er nefnd eftir samnefndri metsöluplötu ABBA, er skipuð 12 hljómlistarmönnum og er allur tónlistarflutningur lifandi. Mikið er lagt í búningana en Arrival er eina hljómsveitin í heiminum sem hefur leyfi til að klæðast nákvæmum eftirlíkingum af búningum ABBA.
Fram kemur í tilkynningu að umgjörð sýningarinnar sé öll hin glæsilegasta. Haft er eftir Tomas Jernberg, umboðsmanni, Arrival, að sveitin hafi heyrt af ABBA-æðinu, sem hafi gengið yfir Ísland undanfarna mánuði, og hlakki einstaklega mikið til að spila fyrir ABBA-aðdáendur á Íslandi. „Við getum lofað kraftmiklum ABBA-tónleikum," segir hann.
Tónleikarnir verða laugardagskvöldið 8. nóvember kl. 21 og hefst miðasala á midi.is næstkomandi föstudag 26. september kl. 10. Miðaverð er 4900 krónur. Það er fyrirtækið Fjörefli ehf. sem stendur fyrir tónleikunum.