Svissneska ævintýramanninum, Yves Rossy, tókst ætlunarverkið nú rétt í þessu: að fljúga yfir Ermarsund á sérútbúnum vængjum með þotuhreyfli. Rossy hætti við flugið í gær vegna þess að veður var óhagstætt í Bretlandi. Flugið milli Calais í Frakklandi til Dover á Englandi, alls um 35 km að lengd, tók um tólf mínútur.
Rossy er því fyrstur til að fljúga yfir sundið með þessum hætti en hann flaug sömu leið og franski flugmaðurinn Louis Bleriot, sem varð fyrstur til að fljúga yfir Ermarsund fyrir 99 árum.