Robert Plant, söngvari bresku rokkhljómsveitarinnar Led Zeppelin, hefur vísað því á bug að hann muni fara í hljómleikaferðalag með gömlu félögum sínum. Hann segir allar slíkar vangaveltur vera „pirrandi og fáránlegar“.
Breska götublaðið The Sun sagði í síðustu viku að Plant, Jimmy Page og John Paul Jones, eftirlifandi meðlimir sveitarinnar, hafi samþykkt að koma saman aftur og fara í hljómleikaferðalag.
Plant segir hins vegar í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér að hann muni ekki fara í tónleikaferðalag með neinum í a.m.k. tvo ár. Plant hefur verið á tónleikaferðalagi með Alison Krauss í Bandaríkjunum, en því mun ljúka 5. október nk. Plant segist ætla að taka sér frí eftir það.
„Þvert á þær fréttir sem hafa borist, þá mun Robert Plant hvorki fara í hljómleikaferðalag né fara í hljóðver með Led Zeppelin til að taka upp nýtt efni,“ segir í yfirlýsingunni.
„Hver sá sem hyggst kaupa miða á netinu á slíka tónleika mun kaupa falsaðan miða.“
Félagarnir í Led Zeppelin spiluðu saman á tónleikum í desember sl. í fyrsta sinn í 19 ár á minningartónleikum um stofnanda Atlantic Records. Í framhaldinu hófust miklar vangaveltur varðandi það hvort sveitin ætlaði að gera eitthvað meira og fara í tónleikaferðalag. Þá hafa margir vonast eftir því að fá að heyra ný Zeppelin lög.
Plant segist óska þeim Page, Jones og Jason Bonham alls hins besta í framtíðinni.