Leikarinn Sacha Baron Cohen, skapari karakteranna Alis G og Borats, er að vinna að nýrri kvikmynd. Hann hefur sett fyrrnefndu félagana inn í skáp en vinnur nú með samkynhneigða austurríska tískufréttamanninn Bruno. Hin nýja kvikmynd Cohens mun vera í anda heimildarmyndar, rétt eins og kvikmyndin um Borat, og ef til vill má lesa í efni hennar úr löngum titlinum, en á ensku nefnist hún: Bruno: Delicious Journeys Through America for the Purpose of Making Heterosexual Males Visibly Uncomfortable in the Precense of a Gay Foreigner in a Mesh T-Shirt. Cohen olli uppistandi á tískuvikunni í Mílanó síðastliðinn föstudag, er hann birtist á sýningu hönnuðarins Agötu Ruiz de la Prada í gervi Brunos. Eftir að hann hafði sprangað um svæðið og að lokum gengið fram sýningarranann í „tískufatnaði“ sínum fjarlægði ítalska lögreglan Cohen af svæðinu. Samkvæmt dagblaðinu The Independent voru lögreglumennirnir þó hrifnir af skopstælingu Cohens á tilgerðarlegum tískusérfræðingi. „Hann var í rauninni mjög fyndinn og það fyrsta sem hann sagði við okkur var: „Má ég hringja eitt símtal, eins og í sjónvarpinu,““ sagði einn lögreglumannanna. Sýningin tafðist vegna uppákomunnar.