Grímsey | Stór sjónvarpshópur alla leið frá Hong Kong, alls ellefu manns, sótti Grímsey heim á dögunum. Með í för var „heimsfrægur“ leikari og sjónvarpskynnir í Asíu, Richie Jen að nafni.
Markmið komunnar til nyrstu byggðar var að kynna fyrir Hong Kong-búum, sem telja átta milljónir manna, hvernig daglega lífið gengur fyrir sig í lítilli byggð á heimskautsbaug. Richie Jen tók viðtöl við börnin í grunnskólanum og fylgdi einum skóladrengnum eftir um eyjuna og inn á heimili hans til að fræðast um líf fjölskyldunnar í vinnu og frístundum. Skólakrökkunum fannst spennandi að vera með sjónvarpsfólkinu og kynna fyrir því skóladaginn, íþróttaiðkanir og útileiki í litlu þorpi við nyrsta haf.