„Í grunninn er þetta mjög einfalt þannig séð. Ilmur leikur hana og ég er rödd hennar,“ segir Bryndís Ásmundsdóttir en hún mun á föstudaginn stíga á svið Íslensku óperunnar í hlutverki Janis Joplin. Þá verður frumsýnt nýtt verk Ólafs Hauks Símonarsonar, Janis 27, en verkið byggir á stuttu en litríku lífshlaupi söngkonunnar Janis Joplin. Leikstjóri verksins er Sigurður Sigurjónsson en þar munu öll bestu lög Janis fá að njóta sín.
Aðspurð segir Bryndís að hún hafi ekki verið fenginn til að syngja í verkinu sökum skorts á sönghæfileikum Ilmar. „Hún er nefnilega alveg ótrúleg söngkona. Hún leynir á sér stelpan, hún er bara að leyfa mér að hafa eitthvað að gera,“ segir Bryndís og hlær.
Bryndís hefur undanfarið ferðast vítt og breitt um landið ásamt Sigríði Beinteinsdóttur þar sem þær stöllur hafa hyllt rokkömmuna miklu, Tinu Turner. Þær sýningar hafa nú runnið skeið sitt á enda og hefur Bryndís því gengið í hlutverk annarar og ekki síðri söngkonu.
„Ég hef bara verið ótrúlega lánsöm að fá þessi tækifæri til að túlka bæði drottninguna Tinu og svo Janis. Það gerist bara ekki betra,“ segir hún.
Bryndís bætir við að hún sé mikill aðdáandi bæði Tinu og Joplin en hún getur ómögulegt gert upp á milli þeirra.
„Það er ekki hægt að gera upp á milli þeirra tveggja. Í mínum augum er Tina meira amma rokksins á meðan Janis er ungur töffari með gamla sál,“
segir Bryndís sem mun án efa gera hinni stórkostlegu Janis Joplin góð skil á sviði Óperunnar.