Dóttir leikarans Heaths Ledgers gæti orðið af 12,5 milljónum dollara ef líftryggingafélag, sem rannsakar nú hvort hann hafi svipt sig lífi, fær sínu framgengt.
Ledger lést af of stórum lyfjaskammti í janúar sl. Dóttir hans, Matilda Rose, er þriggja ára. Ledger arfleiddi foreldra sína og þrjár systur að öllum peningum sínum, alls um 16,6 milljónum dollara, en fjölskyldan hefur staðfest að Matilda fái peningana óskipta.
Lögmenn Matildu hafa nú höfðað mál á hendur tryggingafélaginu, Reliastar Life Insurance, á þeim forsendum að engar vísbendingar hafi fundist um að Ledger hafi vísvitandi tekið of stóran lyfjaskammt til að binda enda á líf sitt.
Vinni Matilda málið gegn Reliastar gæti svo farið að henni verði dæmdar allt að 62 milljónir dollara í skaðabætur.