Tónleikar til styrktar Ellu Dís Laurens, sem þjáist af óþekktum sjúkdómi, verða haldnir í Háskólabíói mánudagskvöldið 13. október. Meðal þeirra sem koma fram eru Páll Óskar, Diddú, Páll Rósinkrans og karlakórinn Fjallabræður en miðasala er hafin á midi.is og kostar 2.500 kr. inn.
Inga Björg Stefánsdóttir, tónmenntakennari í Mýrarhúsaskóla, hefur veg og vanda af skipulagningunni en hún hefur aldrei hitt Ellu Dís eða móður hennar, Rögnu Erlendsdóttur. „Ég hef lengi fylgst með blogginu hennar Rögnu og sá að einhver kom með hugmynd að styrktartónleikum. Ég ákvað að taka þetta að mér og fór af stað,“ segir Inga sem í kjölfarið hefur verið í miklu símasambandi við Rögnu.