„Þetta verður ekki eins og þetta var í fyrra, þegar kveikt var á henni í fyrsta skipti. Ringo og Bítlagæslumennirnir koma til dæmis ekki,“ segir Sif Gunnarsdóttir hjá Höfuðborgarstofu, en kveikt verður á Friðarsúlu Yoko Ono í Viðey á fimmtudaginn í næstu viku.
„Yoko kemur til landsins á mánudaginn og veitir svo friðarverðlaunin, Lennon/Ono peace grant, í Höfða kl. 14 hinn 9. október, sama dag og Friðarsúlan verður tendruð. Það verður þá í fjórða skipti sem verðlaunin eru veitt, og í annað skipti sem það er gert hér á landi,“ segir Sif, en Yoko afhenti verðlaunin hér á landi fyrir tveimur árum, nánar tiltekið í Höfða hinn 9. október árið 2006 þegar mannréttindasamtökin Center for Constitutional Rights og heilbrigðis- og mannúðarsamtökin Læknar án landamæra hlutu verðlaunin.
Eins og áður segir verður Friðarsúlan svo tendruð kl. 20 á fimmtudagskvöldið, og meðal viðstaddra verður borgarstjórinn í Reykjavík.