Kviðdómur í Las Vegas fann í dag bandaríska leikarann og fyrrum ruðningsleikarann O. J. Simpson sekan um mannran og vopnað rán en hann ruddist inn í hótelherbergi í Las Vegas ásamt fleirum fyrir rúmu ári og hafði á brott með sér ýmsa muni sem tengdust íþróttaferli hans. Á Simpson yfir höfði sér ævilangt fangelsi. Dómur verður kveðinn upp 5. desember.
Rétt þrettán ár eru liðin frá því Simpson var sýknaður í frægum réttarhöldum af ákæru fyrir að myrða fyrrum eiginkonu sína og vin hennar.
Simpson sýndi engin svipbrigði þegar kviðdómurinn lýsti því yfir að hann og Clarence Stewart væru sekir af öllum ákæruatriðum. Simpson, sem er 61 árs, og Stewart, voru ákærðir fyrir að ryðjast inn í hótelherbergi ásamt vopnuðum mönnum og hafa á brott með sér minjagripi tengjda íþróttum sem metnir eru á þúsundir dala.
Simpson bar ekki vitni í réttarhöldunum en sagði í viðtölum eftir að hann var handtekinn að hann hefði aðeins verið að endurheimta persónulega muni sem hefði verið stolið frá sér. Hann hefði ekki vitað að félagar sínir væru vopnaðir.
En fjórir af félögum Simpsons báru annað, eftir að hafa gert samkomulag við saksóknara.