Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Steven Spielberg hefur yfirgefið Paramount kvikmyndafélagið og stofnað sitt eigið kvikmyndafélag ásamt indverska auðkýfingnum Anil Ambani, sem rekur félagið Reliance ADA Group. Hann er talinn vera sjötti ríkasti maður heims.
Að sögn Paramount er nýja félagið metið á 1,5 milljarða dala, jafnvirði 170 milljarða króna. Spielberg verður forstjóri félagsins ásamt Stacey Snider, núverandi forstjóra kvikmyndafélagsins Dreamworks.
Það var David Geffen, sem stofnaði Dreamwork með Spielberg, sem gekk frá samkomulaginu við Ambani. Geffen mun ekki ganga til liðs við nýja félagið en gert er ráð fyrir að flestum starfsmönnum Dreamwork verði boðið starf þar.
Bandaríski bankinn JPMorgan Chase mun leggja félaginu til allt að 700 milljóna dala lán en Reliance mun leggja til 550 milljónir. Paramount mun samkvæmt samningi geta tekið þátt í fjármögnun og dreifingu á myndum, sem nýja félagið gerir. Spielberg mun einnig halda áfram að framleiða myndir fyrir Paramount.