Karl Gústaf, Svíakonungur, hefur tapað 10 milljónum sænskra króna, jafnvirði 160 milljóna íslenskra króna, á fjármálakreppunni en hlutabréf sem kóngurinn á, hafa fallið í verði eins og nánast öll önnur hlutabréf í heiminum.
Sænska Aftonbladet áætlar, að hver Svíi hafi að jafnaði tapað 10 þúsund sænskum krónum, jafnvirði um 160 þúsunda íslenskra króna, á verðfalli í kauphöllum heimsins síðustu vikurnar.
Blaðið áætlar að Karl Gústaf hafi tapað 100 sinnum meira. Einkafjárhagur konungs er ekki gerður opinber en hann mun eiga jafnvirði um 100 milljóna sænskra króna í hlutabréfum. Það verðbréfasafn hafi rýrnað um 12% í september.