„Ég hef áður útilokað pólitísk afskipti, en þegar þú nefnir þennan möguleika, eins og staðan er nú, er það alveg spurning hvort maður eigi ekki að stíga skrefið og skella sér í hringinn,“ segir Bubbi
Morthens, sem heldur mótmælatónleika gegn íslensku krónunni á Austurvelli klukkan 12 á morgun, ásamt Sprengjuhöllinni og Buffinu.
Ónýtur gjaldmiðill
„Það er svo hrópleg geðveiki í gangi að það jaðrar við brandara. Hugsaðu þér, að alla mína ævi, utan 10-15 ára, hef ég búið við ónýtan gjaldmiðil; óðaverðbólgu og vesen! Yfirvöld hafa einfaldlega rangt fyrir sér þegar þau segja að krónan sé besti kosturinn að búa við,“ segir Bubbi, sem segir nauðsynlegt hjá almenningi að taka afstöðu. „Það má ekki sitja aðgerðalaus, það þurfa allir að láta í sér heyra. Og þegar ég er fallinn frá, þá geta börnin mín og barnabörn að minnsta kosti sagt að Bubbi hafi ekki verið gunga.“
Ekki kominn hringinn
Bubbi blæs á sögur þess efnis að hann sé nú á byrjunarreit, eftir að hafa verið málsvari lítilmagnans framan af, en kapítalismans í seinni tíð. „Ég er einn fárra manna sem hafalent í einelti fyrir það eitt að fá borgað fyrir vinnu mína. Þeir sem skrifa svona verða að bera ábyrgð á bullinu. Staðreyndin er sú, að eftir að ég vann málshöfðunina gegn Hér og Nú, hefur öll umfjöllun um mig orðið rætnari, en ég get ekki staðið í því, alla daga, að leiðrétta lygina.“