„Við viljum bara hafa jákvæð uppbyggjandi áhrif á þjóðarsálina,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastýra Skjás Eins, en sjónvarpsstöðin hyggst á næstunni færa þjóðinni hughreystandi og jákvæð skilaboð. Til þess að koma skilaboðunum á framfæri hefur Skjár Einn fengið til liðs við sig fjöldann allan af þekktu fólki sem mun birtast í auglýsingatímum stöðvarinnar og flytja áhorfendum hughreystandi pistla.
Meðal þeirra sem taka þátt í hughreystingu stöðvarinnar eru fólk á borð við Dr. Gunna, Sigfús Sigurðsson, Unni Birnu, Jónsa, Þorgrím Þráinsson og Regínu Ósk.
Sigríður segir að eins og staðan sé núna dynji á fólki hver neikvæð fréttin á fætur annarri og Skjár Einn vilji leggja sitt af mörkum til að vega á móti þeim.
„Við ætlum alls ekki að gera lítið úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð. Okkur finnst samt full ástæða til að benda á jákvæða uppbyggjandi hluti núna. Það er ofboðslega mikilvægt að sem flestir taki höndum saman og minni hver annan á að það besta í lífinu er ókeypis,“ segir Sigríður.
Hann segir að hans skilaboð til þjóðarinnar séu nátengd þeirri árstíð sem stendur nú yfir. „Þrátt fyrir það að nú falli laufin af trjánum sér maður nú himininn betur vegna þess að þegar greinarnar eru naktar þá sér maður betur í gegn. Það er þetta sem ég ætla að segja alþýðunni, að þú sjáir himininn betur þrátt fyrir þetta sem á undan er gengið. Þrátt fyrir að allt sverfi að og syrti hafa menn meiri líkur til að vænta þess að eitthvað vonbetra sé á leiðinni heldur en ella væri.“
Pétur segir að hann hafi vel fundið fyrir áhrifum kreppunnar og segir að nú sem aldrei fyrr sé mikilvægt að boða jákvæðan boðskap. Í því skyni boðar Pétur til galdramessu hjá Óháða söfnuðinum á sunnudag og yfirskrift messunnar: Allt í himnalagi.