Skoski leikarinn og Íslandsvinurinn Gerard Butler er sakaður um að hafa ráðist á ljósmyndara í Los Angeles. Lögreglan hefur nú málið til rannsóknar.
Butler, sem er 38 ára og hefur leikið í vinsælum myndum á borð við 300 og Tomb Raider, er sagður hafa slegið ljósmyndara nokkrum sinnum í andlitið snemma í gærmorgun.
Lögreglan á eftir að taka skýrslu af Butler vegna málsins, en hann er sakaður um minniháttar líkamsárás, segir á fréttavef Reuters.
Slúðursíðan TMZ.com greinir frá því að ljósmyndari hafi elt Butler, sem hafði verið á bar í Los Angeles. Haft er eftir ljósmyndaranum að Butler hafi skömmu síðar farið út úr bifreiðinni sinni, gengið að ljósmyndaranum og kýlt hann þrisvar til fjórum sinnum í andlitið. Ljósmyndarinn fór á sjúkrahús með sprungna vör.