Hljómsveitin Blindfold, er Birgir Hilmarsson úr Ampop starfrækir í London, hefur ákveðið að hætta við fyrirhugaða framkomu sína á Iceland Airwaves-hátíðinni í næstu viku. Ástæðan ku vera sú að ekki náðist að finna leið til þess að fjármagna ferðalag hljómsveitarinnar, sem samanstendur einungis af Íslendingum, til landsins.
„Ég er alls ekki nógu ánægður því þeir hjá Airwaves vildu ekki koma neitt til móts við okkur í kostnaði,“ segir Birgir. „Það var ekkert vilyrði fyrir því að reyna aðstoða okkur. Við vorum búnir að setja upp mjög flottan samning við þá og okkur átti að fylgja slatti af liði úr tónlistarbransanum héðan.“
Birgir gerði nýverið höfundarréttasamning við Universal og er því orðinn sjálfstætt starfandi tónlistarmaður í London. Hann segist þakka Guði fyrir að fá borgað í pundum þessa dagana en ekki krónum.
„Í fyrstu fréttatilkynningunum frá hátíðinni vorum við nánast kynntir sem hluti af aðalnúmerunum en svo urðu hlutirnir allt í einu þannig að okkur leið eins og við værum að tala við vegg. Við vorum ekki að biðja um neinar greiðslur, bara aðstoð við að komast til landsins. Ég veit ekki hvað maður á að segja. Við erum geðveikt heitir og það var búið að bjóða okkur í stór viðtöl vegna framkomu okkar þarna en svo er ekkert hægt að hjálpa til.“
Blindfold hefur nýlokið við gerð nýrrar plötu og segist Birgir finna fyrir töluverðum meðbyr og áhuga í höfuðborg Bretlands.