Myndlistarkonan og friðarsinninn Yoko Ono er komin hingað til lands í tilefni af þremur minningarviðburðum sem fram fara í dag, 9. október, á afmælisdegi Johns Lennons. Með Yoko í för er meðal annars sonur hennar og Lennons, Sean Lennon.
Yoko mun veita tveimur handhöfum Lennon/Ono-friðarviðurkenninguna í Höfða í dag, afhjúpa nýtt íslenskt frímerki með mynd af Friðarsúlunni í Viðey og loks verða vitni að hinni árvissu tendrun á ljósi Friðarsúlunnar í kvöld.
Auk þess mun Yoko bjóða fólki að skoða Friðarsúluna með ókeypis bátsferðum sem standa til boða í vikutíma frá og með kvöldinu í kvöld.
Kveikt verður á Friðarsúlunni kl. 20 og býður Yoko almenningi upp á ókeypis siglingar út í Viðey. Þannig vill hún gera sem flestum fært að njóta Friðarsúlunnar í nærmynd. Hvert kvöld kl. 20 frá kvöldinu í kvöld og til 15. október mun 150 manna bátur sigla frá Skarfabakka með gesti sem allir fá frítt meðan bátsrúm leyfir. Ferðirnar eru þó háðar veðri. jbk@mbl.is