Þótt Silja Aðalsteinsdóttir hafi í áratugi verið viðloðandi þá menningu, sem jafnan er meira í hávegum höfð en svokölluð dægurmenning, setti hún sem unglingur svo mikið mark á þá síðarnefndu að henni hefur verið reistur minnisvarði á Poppminjasafninu í Duus-húsi, menningarmiðstöð Reykjanesbæjar.
Á sýningunni Saga rokksins í 50 ár er tveggja vikna ferill hennar sem dægurlagasöngkonu tíundaður á veggspjaldi ásamt mynd af henni frá þessum tíma.
Í viðtali í Morgunblaðinu í dag sviptir Silja, bókmenntafræðingur, rithöfundur, þýðandi og nú útgáfustjóri hjá Máli og menningu, hulunni af þessu tímabili í lífi sínu. Hún var aðeins sextán ára og ein tíu ungmenna sem árið 1960 voru valin úr hópi fjörutíu unglinga, sem komu eftir auglýsingu í prufu hjá KK sextett.
„Við æfðum stíft og sungum með hljómsveitinni á sveitaböllum, í Hlégarði, á Selfossi og víðar flest kvöld í tvær vikur,“ segir Silja m.a. Í viðtalinu ljóstrar hún jafnframt upp ástæðu þess að henni þótti meira gaman í rútunni til og frá böllunum heldur en að syngja.
Silja viðurkennir að hann hafi haft svolítið til síns máls, hún hafi verið mjög feimin – og í rauninni hafi hún aldrei unnið almennilega bug á feimninni, þótt ekki örli eins mikið á henni þegar hún flytji texta eftir aðra.
Í seinni tíð syngur Silja helst þegar hún straujar.