Það er ekki öll vitleysan eins. Nýlega lét Take That-meðlimurinn Gary Barlow hafa eftir sér að hann þyldi ekki að vera í sömu flugvél og aðrar stjörnur því hann vill vera frægasta manneskjan um borð ef vélin hrapar.
Barlow flaug nýverið frá Los Angeles til London þegar hann uppgötvaði að sjónvarpskokkurinn Gordon Ramsay og fótboltakappinn David Beckham voru líka í vélinni. Þá varð honum ljóst að ef vélin færist myndi andlát hans líklega ekki komast á forsíður blaðanna. „Ég sá fyrir mér að það yrði skrifað: „Fótboltastjarna og toppkokkur í flugvélaslysi.“ Svo kæmi í lok greinarinnar; „Poppsöngvarinn Gary Barlow var líka í vélinni.““ Barlow lét hafa þetta eftir sér í The Sun dagblaðinu og við skulum rétt vona að það hafi verið í meira gamni en alvöru.
Barlow var í Bandaríkjunum ásamt hinum í Take That, Mark Owen, Howard Donald og Jason Orange, til að leggja lokahönd á nýja plötu.