Tilnefningar til alþjóðlegu Emmy-verðlaunanna voru tilkynntar í gær. Eins og búast mátti við er sjónvarpsefnið sem komst á blað frá öllum heimshornum, alls sextán löndum og komust Jórdanía og Perú í fyrsta sinn á blað í sögu verðlaunanna.
Nokkrir af góðvinum íslenskra sjónvarpsáhorfenda keppa um verðlaun og þar á meðal er breska brúðuþáttaröðin Shaun the Sheep, sem fékk nafnið Hrúturinn Hreinn í íslenskri þýðingu, en hann keppir um verðlaunin fyrir besta barnaefnið. Bresku þættirnir The IT Crowd, voru sömuleiðis tilnefndir í flokki besta gamanefnis og dönsku þættirnir Forbrydelsen (ísl. Glæpurinn) voru tilnefndir til verðlauna fyrir besta dramatíska sjónvarpsefnið. Aðalleikkona þáttanna, Sofie Gråbøl, var líka tilnefnd sem besta leikkona í sjónvarpsþætti.