Þótt nokkuð margar nýjar myndir hafi verið frumsýndar í íslenskum kvikmyndahúsum fyrir helgi hélt íslenska stórmyndin Reykjavík Rotterdam stöðu sinni sem tekjuhæsta myndin á landinu, aðra helgina í röð. Alls skelltu 3.333 sér á myndina um helgina sem skilaði tæpum fjórum milljónum króna í kassann. Frá því myndin var frumsýnd hafa rúmlega 13 þúsund manns séð hana og eru tekjurnar nú komnar í 14 milljónir króna.
Gamanmyndin The House Bunny kom sér vel fyrir í öðru sætinu með 2.700 gesti um helgina og tekjur upp á 2,3 milljónir króna. Myndin fjallar um ljóskuna Shelley Darlington sem lifir tiltölulega áhyggjulausu lífi í Playboy-setrinu, allt þar til einn góðan veðurdag að henni er kastað á dyr.
Loks vekur athygli að spennumyndin Righteous Kill nær aðeins áttunda sætinu með 690 gesti um helgina. Myndin skartar tveimur af stærstu leikurum Hollywood, þeim Robert DeNiro og Al Pacino, og ætti því að trekkja að. Ástæðan er þó líklega sú að myndin hefur víða fengið afleita dóma og sem dæmi má nefna að hún fær aðeins eina stjörnu í Morgunblaðinu í dag.