Útgáfu nýrrar hljómplötu Ladda hefur verið frestað fram á næsta ár. Ástæðan ku vera sú að platan var ekki komin nægilega langt í framleiðslu en heimildir Morgunblaðsins herma að sex af þeim 36 titlum sem Sena ráðgerði að senda frá sér um þessi jól hafi verið frestað um óákveðinn tíma. Eru þar á meðal safnplötur Tvíhöfða, Páls Rósinkrans og Savanna tríósins.
Mun það hafa verið mat fyrirtækisins að glapræði væri, í ljósi slæms ástands krónunnar og stopulla gjaldeyrisviðskipta við útlönd, að gera ekki einhverjar breytingar á áætluninni fyrir jólamarkaðinn. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í síðustu viku hafa önnur útgáfufyrirtæki lent í erfiðleikum með að innleysa plötur úr tolli vegna ónógs gjaldeyris í landinu. Aðdáendur Ladda verða því að bíða um sinn eftir nýju efni frá grínaranum.