Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefst með formlegum hætti í dag í skugga kreppunnar. Breska ríkisútvarpið BBC fjallar ítarlega um hátíðina og ræðir m.a. við Þorstein Stephensen, framkvæmdastjóra hátíðarinnar, en greinin birtist á vef BBC í dag.
Hann segir m.a. frá því að erlendu listamennirnir hafi samþykkt að koma til landsins og spila án þess að fá greitt fyrirfram líkt og hafi verið vaninn. Þetta byggi á gagnkvæmu trausti sem hafi byggst upp undanfarin áratug.
Þorsteinn segir að fólk þurfi nauðsynlega á einhverju upplífgandi og jákvæðu að halda í því ástandi sem nú sé ríkjandi.
Biffy Clyro, Vampire Weekend og CSS eru á meðal þeirra erlendu listamanna sem munu skemmta landanum í höfuðborginni næstu daga.
„Þær munu fá greitt daginn sem þær spila í peningum. Þetta er óvanalegt ástand, en svona verður þetta að vera,“ segir Þorsteinn.
Sem fyrr segir hefst hátíðin í dag þrátt fyrir að það þýði tap fyrir skipuleggjendur hátíðarinnar.
„Við högnumst ekkert. Kostnaðurinn hefur næstum því þrefaldast,“ segir Þorsteinn.