Töluvert hefur borið á því að undanförnu að fólk hafi afbókað utanlandsferðir vegna aðstæðna í íslensku efnahagslífi, og stöðu íslensku krónunnar. Aðdáendur Bubba Morthens virðast ekki ætla að láta slík smáatriði á sig fá ef eitthvað er að marka mikinn áhuga á tónleikum kappans í Kaupmannahöfn á laugardaginn.
Samkvæmt upplýsingum frá Express-ferðum hefur ekkert verið um afbókanir, og er raunar uppselt í allar pakkaferðir á tónleikana. Það er þó ekki öll nótt úti því enn er hægt að kaupa flug og miða á tónleikana.
Bubbi hefur annars verið í miklu stuði síðan bankakreppan skall á, og vilja gárungarnir meina að hann njóti sín jafnvel betur í kreppu en góðæri. Það er því spennandi að sjá hvort hann fer að semja eins góða tónlist og hann gerði á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar.