Fullt var út úr dyrum Hafnarhússins á tónleikum GusGus á Iceland Airwaves á fimmtudagskvöldið. Athygli vakti hversu pólitískir þeir GusGus-menn voru, en í upphafi tónleikanna hvatti Stephan Stephensen, betur þekktur sem President Bongo, fólk til þess að mæta á mótmæli sem staðið verður fyrir á Austurvelli kl. 15 í dag.
Það eru þau Hörður Torfason, Dr. Gunni og Kolfinna Baldvinsdóttir sem standa fyrir mótmælunum, en þar verður þess krafist að Davíð Oddsson seðlabankastjóri segi af sér, eða verði vikið frá störfum. Stephan lét ekki þar við sitja heldur söng hann í millikafla í einu laganna línuna „Davíð, hvað ertu að gera í Seðlabankanum?“ og endurtók hana nokkrum sinnum. Ekki var annað að sjá en að viðstaddir tækju vel undir þessi orð forsetans.