„Aðdáendur listar Büchners verða sennilega fyrir verulegum vonbrigðum með þessa uppfærslu,“ skrifar Charles Isherwood, gagnrýnandi The New York Times, um uppfærslu Vesturports og Borgarleikhússins á Woyzeck eftir Georg Büchner. Verkið er sýnt í Brooklyn Academy of Music í New York.
Gagnrýnandinn lýsir uppfærslu þessa lykilverks leikbókmenntanna, sem hann segir „fjöruga en kjánalega.“ Hann segir leikara klifra upp og niður reipi, eins og keppendur í þáttunum „American Gladiators,“ og þeir eyði svo miklum tíma í vatni að þeir gæti líklega fengið vottorð sem strandverðir. „Af og til , þegar þörf er á hvíld frá fjörinu, hrópar einhver eina, tvær eða þrjár línur úr leiktexta Büchners,“ segir hann.
Gagnrýnandinn vísar til fjármálakreppunnar hér á landi, þegar hann segist „hika við að finna að því þótt einhverjir frá Íslandi vilji skemmta sér þessa dagana,“ en síðan bætir hann við: „Það er erfitt að ímynda sér hvað dró listamennina að afar myrku leikverki Büchners, þar sem þeir kjósa að hunsa bæði textann og andann í því.“