Réttarhöld yfir bandarísku poppsöngkonunni Britney Spears voru ógilt í dag en söngkonan sætti ákæru fyrir að aka bíl án þess að vera með gilt ökuskírteini í Kalíforníu. Kviðdómur komst ekki að niðurstöðu í málinu.
Litlu munaði raunar, að Britney yrði sýknuð því 10 kviðdómendur vildu sýkna hana en tveir sakfella. Fram kom, að Britney hafði ekki verið handtekin á staðnum þegar hún lenti í umferðaróhappi og ók af vettvangi heldur síðar þegar myndband af óhappinu birtist í fjölmiðlum.
Lögmaður Spears fullyrti, að hún hefði gilt ökuskírteini í Louisiana og þar sem hún hefði ekki fasta búsetu í Kalíforníu gæti hún ekið þar án sérstaks Kalíforníuskírteinis.
Spears kom aldrei fyrir dóminn. Hún vinnur nú hörðum höndum að því að endurreisa tónlistarferil sinn og virðist ganga það ágætlega en nýtt lag hennar, Womanizer, fór í 1. sæti Billboard vinsældalistans um helgina.
Verjendur Spears fullyrtu, að hún hefði verið ákærð vegna frægðar sinnar og hefði í raun átt að sleppa með smávægilega sekt. Saksóknarar sögðu hins vegar, að Spears hefði hafnað sáttum. Henni hefði verið boðnar sættir, sem fælu í sér skilorðsbundinn dóm og 1000 dala sekt.
Saksóknari viðurkenndi hins vegar að það væri afar sjaldgæft að smámál af þessu tagi færu fyrir dóm og gat ekki nefnt neitt annað dæmi.