Aðdáendur bandarísku rokkhljómsveitarinnar Guns N' Roses hafa lengi beðið eftir nýju efni frá hljómsveitinni og fengu í dag loksins eitthvað fyrir sinn snúð. Fyrsta laginu af plötunni Chinese Democracy, sem hefur verið í vinnslu á mörg ár, var formlega sleppt í útvarpsspilun í morgun.
Þetta er reyndar ekki það fyrsta sem heyrist af plötunni, því þegar hafði efni af henni lekið á netið og m.a. voru 9 lög birt á bandarískri bloggsíðu í sumar. Bloggarinn sætti í kjölfarið FBI rannsókn fyrir brot á höfundarréttarlögum og hefur verið stefnt fyrir rétt. Ef hann verður dæmdur sekur gæti hann átt allt að þriggja ára fangelsi í vændum.
Lagið sem sett var í spilun í dag er titillag plötunnar Chinese Democracy og er svipað þeirri útgáfu sem þegar hafði lekið á netið, en þó í mun meiri gæðum. Að sögn vefrits Rolling Stone tónlistartímaritsins hefst lagið með einkennandi öskri söngvarans Axl Rose áður en gítarinn tekur við.
Platan sjálf er væntanleg í plötubúðir í lok nóvember, en Guns N' Roses hafa ekki gefið út plötu í 15 ár, eða síðan The Spaghetti Incident? kom út árið 1993. Nú er að sjá hvort biðin hafi verið þess virði.