Fyrstu fimm þúsund eintökin af Sleepdrunk Seasons, frumburði hljómsveitarinnar Hjaltalín, eru uppseld hjá útgefanda. Samkvæmt tilkynningu frá sveitinni var ekki ákveðið að prenta sömu upptökur aftur, heldur notast við upplag af bresku útgáfu plötunnar sem inniheldur lagið „Þú komst við hjartað í mér“.
Lagið sem nýlega sló Íslandsmet í sölu á Tónlist.is, verður því fáanlegt á efnislegri plötu með Hjaltalín en áður hafði það komið út á Pottþétt safnplötu. Hjaltalín hyggst sjálf gefa út plötuna sína í Bretlandi í næsta mánuði og var ákveðið að setja sumarslagarann, „Þú komst við hjartað í mér“, inn sem aukalag.
Hjaltalín sló í gegn á síðustu Airwaves-hátíð og eins og kom fram í Morgunblaðinu varð allt vitlaust í Hafnarhúsinu þegar Páll Óskar steig á svið í fyrrnefndu lagi. Ný plata ætti að líta dagsins ljós í lok sumars 2009.