Breski leikarinn og Íslandsvinurinn Roger Moore, sem er þekktastur fyrir að hafa leikið njósnara hennar hátignar í sjö kvikmyndum, var heiðraður í Frakklandi við hátíðlega athöfn í París í dag. Moore var sæmdur æðstu menningarorðu Frakka.
Christine Albanel, menningarmálaráðherra Frakklands, sæmdi Moore orðunni. Hún sagði við athöfnina að Moore væri sönn goðsögn í heimi kvikmynda og sjónvarps.
„Frakkland er bæði ánægt og stolt yfir að geta heiðrað goðsögn með risastóru hjarta,“ sagði Albanel.
Moore, sem er 81s árs, skaust fyrst á stjörnuhimininn á sjöunda áratugnum þegar hann lék aðalhlutverkið í sjónvarpþáttunum Dýrlingurinn (e.The Saint). Þá lék hann á móti bandaríska leikaranum Tony Curtis í þáttunum The Persuaders, sem voru vinsælir á áttunda áratugnum. Þeir léku ríka glaumgosa sem tóku að sér að rannsaka glæpamál.
Það var svo árið 1973 þegar Moore brá sér í gervi James Bond í kvikmyndinni Live and Let Die, en hann tók við kyndlinum af Sean Connery - með stuttri viðkomu George Lazenby í millitíðinni. Síðasta Bond-myndin með Moore í aðalhlutverki var A View to a Kill frá árinu 1985.