Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður tekur í dag við Söderbergshönnunarverðaununum að fjárhæð 1 milljón sænskra króna. Steinunn er fyrst tískuhönnuða til að hljóta Söderbergsverðlaunin. Hún veitir þeim viðtöku í Gautaborg síðdegis í dag. Sýning á verkum Steinunnar verður opnuð í Röhsska listverka- og hönnunarsafninu í Gautaborg á morgun.
Söderbergshönnunarverðlaunin eða Torsten og Wanja Söderbergverðlaunin, hafa verið veitt árlega frá 1994. Þau eru einhver stærstu verðlaun sem veitt eru fyrir hönnun.
Í rökstuðningi verðlaunanefndar segir m.a., að í hönnun Steinunnar skíni í gegn reynsla og þekking á gæðum og tilfinning fyrir tísku. Steinunn sæki hugmyndir í íslenska náttúru og sé virtur fulltrúi Norðurlandanna í alþjóðlegum tískuheimi.
Steinunn Sigurðardóttir er þekkt nafn í tískuheiminum. Hún vann um árabil mjög náið með Calvin Klein, Tom Ford hjá Gucci og Ralph Lauren. Auk þess hefur hún hannað tískufatnað fyrir Donna Karen, Banana Republic, Jeffrey Banks, Vogue, Henry Bendel, Gloria Sach, La Perla og Carmelo Pomodoro.
Árið 2000 stofnaði hún eigið fyrirtæki og hóf að framleiða tískufatnað undir eigin merki; STEiNUNN.
Hluti hönnunar Steinunnar verður sýndur í Röhsska listverka- og hönnunarsafninu í Gautaborg. Sýningin spannar þrjár nýjustu línur hennar. Sýningin veðrur formlega opnuð á morgun og stendur til 22. febrúar 2009.