„Þetta er voðalega krúttlegt, hvað get ég annað sagt?“ segir Bubbi Morthens um ábreiðu Skjaldar Eyfjörð á laginu „Fjöllin hafa vakað“. Myndband við lagið hefur farið eins og eldur í sinu um netheima, og sitt sýnist hverjum um afraksturinn.
„Ég ætla ekkert að fara að hnýta í Skjöld. Ég get hnýtt í ríkisstjórnina og ég get hnýtt í yfirmenn Kaupþings og svo framvegis, en ég hnýti ekki í Skjöld,“ segir Bubbi sem viðurkennir þó að útgáfa Skjaldar sé ekki alveg í sínum stíl. „Nei nei, hann gerir þetta bara eins og hann langar til að gera þetta. Það eru margir sem hafa skoðun á þessu og margir þeirra hneykslast mikið á þessu. En ég skoðaði þetta og mér sýnist hann bara vera voðalega glaður og hamingjusamur að vera að flytja þetta. Þannig að ég segi bara verði honum að góðu, þetta er bara allt í lagi.“