„Ég er að bíða eftir svari frá borgarráði. Það er fundur hjá þeim á fimmtudaginn [í dag]. Okkur vantar nefnilega tvær milljónir króna til þess að borga fyrir rafmagn og þrif,“ segir Bubbi Morthens sem hyggst standa fyrir stórum samstöðutónleikum fyrir íslensku þjóðina í Laugardalshöllinni hinn 15. nóvember næstkomandi. Ef af verður mun fjöldi listamanna koma fram og gefa vinnu sína í þeim tilgangi að þjappa þjóðinni saman í kreppunni, en ókeypis verður á tónleikana.
„Það væri frábært ef borgin gæti lagt þetta til, ég bið til guðs að þeir geri það og sýni þessu skilning. Því mér finnst það skipta gríðarlegu máli að geta haldið svona samstöðutónleika. Það er nefnilega ekki oft sem helstu listamenn koma saman á einum stað, alveg frá Ham til Sálarinnar hans Jóns míns, og það er frítt inn. Þetta getur hins vegar allt farið á versta veg ef borgin vill ekki láta okkur fá pening. Við getum nefnilega ekki borgað tvær milljónir því við eigum þær hreinlega ekki,“ útskýrir Bubbi.
Fjöldi flytjenda hefur staðfest þátttöku sína á tónleikunum ef af verður, en auk Bubba munu koma fram Baggalútur, Ham, Buff, Ragnheiður Gröndal, Lay Low, Esja, Stuðmenn, Sálin hans Jóns míns og Nýdönsk.