Vestrið eina er kolsvört kómedía þar sem kartöflurnar fljúga og bræður berjast. Leikfélag Reykjavíkur frumsýnir verkið í kvöld. Margir kannast hugsanlega við In Bruges vinsæla kvikmynd eftir sama höfund, Martin McDonagh.
Verkið snýst um sálfræðihernað bræðranna Coleman og Valene sem þeir Þröstur Leó Gunnarsson og Björn Thors túlka. Bræðurnir grýta hvor annan með kartöflunum og rifja upp skráveifur sem þeir hafa gert hvor öðrum um ævina.
Leikmyndin sem Ilmur Stefánsdóttir hannaði er að miklum hluta til
lífræn því inn á svið rúllar um hálft tonn af kartöflum sem nýtast þeim
bræðrum sem vopn í vonlausum átökum þeirra. Maður skyldi ætla að
kveikjuna að kartöfluflóðinu í sýningunni mætti rekja til hinnar löngu
sögu kartöfluræktar á Írlandi og mikillar hungursneyðar á 19. öld er
uppskeran brást en svo mun þó ekki vera heldur sú staðreynd að Írar
borða allra þjóða mest af kartöfluflögum ef tekið er mið af hinni frægu
höfðatölu. Þess má geta að hvergi í handriti verksins er minnst á
kartöflur fyrir utan að bræðurnir borða mikið magn af kartöfluflögum í
því.