Steven Spielberg og Will Smith eru nú í viðræðum um að endurgera kóresku kvikmyndina Oldboy eftir Chan-wook Park frá 2003. Myndin segir frá manni sem er haldið föngnum í litlum klefa í fimmtán ár án skýringa. Honum er síðan sleppt og þá þarf hann að finna þann sem læsti hann inni og ná fram hefndum. Myndin vakti mikla athygli á sínum tíma og fékk meðal annars verðlaun á Cannes-kvikmyndahátíðinni.
Framleiðslufyrirtækið Dream Works vinnur nú að því að tryggja sér réttinn til þess að gera nýja útgáfu. Ef það tekst er ætlunin að Will Smith leiki aðalhlutverkið, en þeir Spielberg munu hafa leitað að verkefni til að vinna að saman í þó nokkurn tíma.