Leikstjórinn Baz Luhrmann segist ekki vera búinn að fullklára nýjustu kvikmynd sína, sem ber heitið Australia, þrátt fyrir að myndin eigi að vera frumsýnd um allan heim í næstu viku. Um sannkallaða stórmynd er að ræða, en hún kostar um 130 milljónir dala í framleiðslu.
Lurhmann flaug aftur til Sydney í Ástralíu til að ljúka við gerð myndarinnar eftir að hafa verið staddur í New York á mánudagskvöld. „Við erum á síðasta snúningi. Ég hef bókstaflega bara aðfararnótt föstudags til að þrýsta á hnappinn,“ sagði hann í samtali við Reuters-fréttastofuna.
Luhrmann, sem er 46 ára, hefur unnið að gerð myndarinnar undanfarin fjögur ár. Hann sagði við Reuters að hann væri á heimleið „til að ljúka henni á 24 tímum“.
Með aðahlutverkin í myndinni fara þau Nicole Kidman og Hugh Jackman.