Karl bretaprins fagnar sextugsafmæli á morgun, 14. nóvember og hafa mikil hátíðahöld verið undirbúin vegna afmælisins.
Efnt var til skemmtunar fyrir Karl í leikhúsi í suðvesturhluta Lundúnaborgar í gærkvöld, þar sem meðal annarra komu fram gamanleikararnir Robin Williams, Rowan Atkinson og John Cleese. „Það er vel við hæfi að heiðra erfingja krúnunnar með skemmtun í borulegu leikhúsi í úthverfi borgarinnar,“ sagði Cleese þegar hann ávarpaði bretaprins á sinn meinfyndna hátt.
Elísabet II Englandsdrottning heldur galaveislu til heiðurs Karli, elsta syni sínum, í Buckinghamhöll í kvöld. Og veisluhöldin halda áfram, Karli til heiðurs. Camilla Parker Bowles, eiginkona Karls, heldur svo á laugardagskvöld óformlegri veislu fyrir mann sinn, þar sem boðið er nánustu vinum og vandamönnum. Meðal þeirra sem skemmta prinsinum og gestum hans er Rod Stewart. Í tilefni dagsins hefur rokkstjarnan ákveðið að taka ekkert fyrir að koma fram í veislu prinsins en venjulega tekur Rod Stewart 1,2 milljónir evra fyrir skemmtun sem þessa.
sérstakur þáttur var helgaður Karli í breska ríkissjónvarpinu BBC í gær. Þar sagðist Karl ekki viss um að hann nyti sín í hlutverki erfingja krúnunnar nema að takmörkuðu leyti. Hann tekur við krúnunni af móður sinni, Elísabetu II Englandsdrottningu, að henni genginni eða þegar hún ákveður að afsala sér krúnunni. Bið Karls gæti orðið löng því móðir hans hefur látið að því liggja að hún ætli að sitja sem drottning til dauðadags. Elísabet II er 82 ára í dag. Móðir hennar lést 101 árs að aldri.