Ranía drottning Jórdaníu hefur verið tilnefnd til verðlauna af myndskeiðavefsíðunni YouTube fyrir tilraunir sínar til að sýna fram á að múslímar og miðausturlandabúar falli ekki í einn staðlaðan flokk.
„Það er mér sönn ánægja að taka á móti fyrstu YouTube framsýnisverðlaununum sem veitt eru í þessum anda,“ segir í tilkynningu frá drottningunni. „YouTube hvetur okkur til að vera virkir þátttakendur í hnattrænum samræðum, til að láta heyra í okkur, gefa okkur möguleikann á að senda út sjálf, auka þekkingu okkar hvert á öðru og brjóta þannig niður múrana á milli okkar músasmell fyrir músasmell.“
Það var í aprílmánuði sem Ranía drottning, eiginkona Abbdulla II Jórdaníukonungs, opnaði sína eigin vefsíðu á YouTube með það að markmiði að hvetja ungt fólk til að taka á málefnum tengdum kynþáttastöðlun.
Myndskeiðin á síðunni hafa nú fengið tæplega þrjár milljónir heimsókna og rúmlega 43.000 skilaboð víðsvegar að úr heiminum hafa verið sett á síðuna.