Herdís Egilsdóttir fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

mbl.is/Kristinn

Herdís Egilsdóttir, kennari hlýtur verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2008. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra veitti Herdísi verðlaunin í hátíðasal Háskóla Íslands fyrir stundu. Auk þess voru einnig veittar sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu.

Herdís Egilsdóttir hlaut í verðlaun eina milljón króna og ritsafn Jónasar Hallgrímssonar í hátíðarbandi.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir að með hverri kynslóð fæðist tungumálið upp á nýtt. Það þroskist og þróist með nýjum notendum. Tungan sé um leið framandi strönd landnema sinna. Grunnskólakennarar þjóðarinnar séu leiðsögumenn í þeirri för“.

Herdís Egilsdóttir fæddist á Húsavík árið 1934 og var styrkt til náms við Menntaskólann á Akureyri þaðan sem hún lauk stúdentsprófi árið 1952 og ári síðar lauk hún kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands. Árið 1953 hóf hún kennslustörf við Skóla Ísaks Jónssonar og lét af störfum þar árið 1998 eftir 45 ár.

Herdís hefur samið fjölbreytt efni fyrir börn, jafnt í máli sem myndum og tónlist, en eftir hana liggur á annan tug barnabóka auk tímaritsgreina. Einnig hefur hún samið efni fyrir útvarp, sjónvarp og leikhúsin í landinu. Á seinni árum er Herdís einna kunnust fyrir verkefni sitt „Litlir landnemar“, þar sem leitað er svara við margvíslegum spurningum. Hvernig verður þjóð til? Hvernig kemur þjóð sér upp mannsæmandi lífsskilyrðum? Hvernig velur hún og hafnar eftir aðstæðum og efnahag?Hvernig bregst hún við óæskilegum aðstæðum og freistingum og hvaða gildi hefur hún í hávegum?

Verkefnið „Litlir landnemar“ fjallar um líf nútímafólks í landi þar sem allt vantar nema gjafir náttúrunnar. Nemendur stofna nýtt samfélag á fjarlægri eyju úti í hafi og þurfa að gera ráð fyrir öllum þeim mögulegu og ómögulegu aðstæðum sem upp koma við landnám. Þannig glíma ungir námsmenn við að móta sitt eigið samfélag með yfirsýn og fjölbreytilegum sjónarmiðum og án þess að einblína á lausnir talnakúnstarinnar.

Mannauður þjóðarinnar býr í grunnskólum landsins. Það hefur löngum verið hlutverk barnakennara að ávaxta þennan auð. Það er fulltrúi þeirra sem við heiðrum í dag fyrir hæfileika hennar til að kveikja ljós, áhuga og þorsta eftir þekkingu - til að virkja orkustöðvar æskunnar og veita henni staðgott vegarnesti í hretviðrum lífsins.

Sérstakar viðurkenningar

Menntamálaraðherra ákvað auk þessa að veita tvær viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu. Önnur er veitt Landnámssetri Íslands í Borgarnesi og hina fær Útvarpsleikhúsið.

Landnámssetur Íslands

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir að Landnámssetur Íslands sæki þjóðararfinn í hérað og geri hann aðgengilegan fyrir íslenska jafnt sem erlenda gesti og fyrir alla aldurshópa. Á lifandi hátt ferðist safnagestir aftur í tímann og sögurnar og finni fyrir nálægð Egils á Borg og samferðamanna á áhrifamikilli Egilssýningu þar sem handverk og hugverk spinna órjúfanlega sagnavoð. Landnámssýning varpi ljósi á upphaf þjóðar og skýri um margt þá ferð sem framundan var í gegnum aldir og hefur skilað Íslendingum á framtíðarveg.

„Þá eru ótaldar leiksýningar á Sögulofti sem vakið hafa mikla og verðskuldaða athygli og varpað ljósi á Egilssögu á litríkan og frumlegan hátt. Einnig stendur Landnámssetur fyrir sagnakvöldum þar sem sögumenn viðhalda gamalli sagnahefð og tungumálið fær notið sín í sterkri og einfaldri mynd kynngimagnaðrar frásagnar.
Landnámssetur teygir starfsemi sína út fyrir veggi safnsins þar sem vörður hafa verið reistar á sagnaslóð í og við Borgarnes og leiðarvísir fyrir vörðurnar hefur verið útbúinn svo ganga megi um sögustaði og upplifa Eglu á vettvangi atburða. Á Landnámssetri er unnið metnaðarfullt starf þar sem efniviðurinn er bókmenntir, saga, arfur og umfram allt íslensk tunga og menning.“

Útvarpsleikhúsið

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir að í sjötíu ár hafi leiklistarflutningur verið fastur liður á dagskrá Ríkisútvarpsins. Árið 1939 voru leikrit með vinsælasta efni útvarpsins og voru það árið flutt á fimmta tug verka. Ríkisútvarpið geymir dýrmæta heimild um íslenska leikritun og er þar mikilvægt brot af menningararfi þjóðarinnar. Útvarpsleikhús er sjálfstæð listgrein. Sviðið verður til í hugum hlustenda og stækkar og minnkar eftir hugarflugi hvers og eins. Ekkert er ómögulegt og fá listform höfða jafn sterkt til ímyndunaraflsins, eða eins og sagt er: ,,Í útvarpinu loka menn augunum til þess að sjá betur.“

Í hljóðleikhúsinu verður til framsækin leiklist sem speglar íslenskan veruleika á spennandi hátt. Þar er tungumálið stóra verkfærið sem leikur á hugann. Þar hafa margir þekktustu listamenn þjóðarinnar stigið á svið og haldið tryggð við listformið. Í amstri nútímans og hringiðu tæknialdar tekst hljóðleikhúsinu enn að fanga hlustendur, stöðva tímann og draga leikhúsgesti sína inn í ævintýraheima með tungumálið eitt að vopni. Það er því sönn ánægja að veita Útvarpsleikhúsinu viðurkenningu fyrir samfellt og ómetanlegt menningarstarf sem sjötíu árum frá upphafi sínu er enn í fullum blóma.

Viðurkenningarhafar fengu listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur.

Í ráðgjafarnefnd um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu sitja Kristján Árnason, Guðrún Egilson og Kristín Helga Gunnarsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir