Edduverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í kvöld. Sem fyrr eru margir kallaðir í hinum ýmsu flokkum kvikmynda- og sjónvarpsefnis, en færri útvaldir.
Sæbjörn Valdimarsson kvikmyndagagnrýnandi fjallar í blaðinu í dag um tilnefningarnar og hverjir hann telur að hljóti hnossið. Hann segir að Edduárið 2007-2008 verði fært í annála sem vel í meðallagi og með ófáar rósir í hnappagatinu. Tvær kvikmyndir komi sterklega til greina sem sú besta á árinu: Brúðguminn, sem er hefðbundin gamanmynd, prýdd einum besta leikhópi sem sést hefur hér á tjaldinu, og Reykjavík-Rotterdam, fyrsta alvöru spennumyndin sem gerð er hérlendis.
Fimm sjónvarpsþáttaraðir eru tilnefndar en Sæbjörn telur Pressu sigurstranglegasta.