Sögusagnir eru nú á kreiki um að leik og söngkonan Miley Cyrus sé látin. Er orðrómurinn orðinn svo hávær að besta vinkona hennar Mandy Jiroux hefur séð sig knúna til að lýsa því yfir að stúlkan sé sprelllifandi og við góða heilsu.
Miley og Mandy koma saman fram í myndböndum sem sýnd eru á YouTube síðu þeirra 'Miley and Mandy Show' en þar birtist nýlega færsla þar sem Mandy er sögð tilkynna lát Miley. Í skriflegum skilaboðum sem Mandy hefur nú birt á annarri síðu sinni segir hún ekkert til í þessu. „Það braust einhver inn á 'Miley and Mandy Show' á YouTube og við komumst ekki inn strax. Miley er í lagi," segir hún.
Í færslunni sem birt var á 'Miley and Mandy Show' segir: „Hæ krakkar þetta er Mandy. Ég hef mjög sorglegar fréttir. Það særir okkur mjög að þurfa að segja ykkur öllum frá því en Miley lést í morgun eftir að hafa orðið fyrir bíl ölvaðs ökumann. Miley var búin að biðja okkur um að segja aðdáendum hennar frá því ef eitthvað kæmi fyrir hana, áður en það færi í gegnum fjölmiðlafulltrúa hennar. Ástin við munum sakna þín svo mikið.”