Rokksveitina For a Minor Reflection skipa þeir Kjartan Hólm og Guðfinnur Sveinsson, sem leika á gítar, Elvar Jón Guðmundsson, sem spilar á bassa, og Jóhannes Ólafsson, sem spilar á trommur. Þeir byrjuðu víst sem hálfgert metal-band, sneru sér síðan að indírokki og svo að blús, en tóku loks upp geimferðir á gítara sem þeir stunda í dag.
For a Minor Reflection er liðlega tveggja ára gömul, en hefur þegar unnið sér orð sem fyrirtaks tónleikasveit. Henni var boðið að hita upp fyrir Sigur Rós á tónleikaferð um Evrópu í haust, fimmtán tónleikar á nítján dögum; óneitanlega snarpur túr.
Í túrnum ferðast sveitarmenn um Evrópu á smárútu og gista á „sóðalegum vegahótelum“ sem er nokkurn veginn eftir bókinni að þeir segja. „Við vissum annars ekki við hverju var að búast enda erum við vanir að spila fyrir miklu færri á miklu minni stöðum. Við vorum náttúrlega léttstressaðir fyrir ferðina en svo hefur þetta allt verið óvenju easy peasy.“
Þeir félagar segja að það hafi komið sér skemmtilega á óvart hve vel seldist af diskinum þeirra á tónleikum. „Okkur skilst að fólk í Suður-Evrópu haldi fastar í peninginn, en okkur gekk vel í Bretlandi,“ segja þeir og bæta við að þeir hafi það „ógeðslega gott“ og eygi það að koma jafnvel út í plús þegar upp er staðið. For a Minor Reflection hitar upp fyrir Sigur Rós á tónleikum í Laugardalshöll á sunnudaginn kemur. arnim@mbl.is