Bandarísku söngkonunni Britney Spears líður eins og hún hafi verið dæmd í ævilangt fangelsi. „Það er engin spenna engin ástríða. Ég á mjög góða daga en svo á ég líka erfiða daga. Jafnvel þegar fólk situr í fangelsi veit það að það kemur að því að það losnar út,” segir hún. „En svona er þetta. Það er enginn endir á þessu.”
Söngkonan var svipt sjálfforræði í upphafi árs og lýtur enn forræði föður síns. Hún segist því hafa það á tilfinningunni að enn sé verið að refsa henni fyrir að hafa brotnað saman í kjölfar skilnaðar síns frá Kevin Fedeline og fæðingar tveggja sona þeirra.
Í væntanlegum sjónvarpsþætti ‘Britney: For The Record’ segist hún ekki líta svo á að hún sé ófær um að stjórna lífi sínu.
„Mér finnst það ekki vera stjórnlaust. Mér finnst það undir of mikilli stjórn. Lifði ég ekki við þau höft sem á mig hafa verið sett, fyndi ég fyrir svo mikilli frelsistilfinningu. Þegar ég segi þeim frá því hvernig mér líður er eins og þau heyri það sem ég segi en skilji það ekki. Geri fólk mistök í vinnunni fær það tækifæri til að halda áfram eða byrja upp á nýtt. Ég þarf hins vegar að greiða fyrir mistök mín í langan tíma. Ég vildi aldrei verða niðurnjörfuð. Ég vildi alltaf vera frjáls.”
Talið er að rekja megi óhamingju Britney nú til þess að Federline, sem fer með forræði sona þeirra, hefur hafnað beiðni hennar um að fá að fara með þá til Bretlands síðar í þessum mánuði en þar mun hún koma fram í sjónvarpsþættinum ‘The X Factor’.
Einnig er Jamie faðir hennar sagður leggja hart að henni þar sem hann vilji sanna fyrir umheiminum að honum hafi tekist að koma málum dóttur sinnar í farsælan farveg.