Út er komið einkar veglegt safn með Sálinni hans Jóns í þremur mismunandi útgáfum en tilefnið er tvítugsafmæli sveitarinnar. Þar á meðal er einkar tæmandi viðhafnarútgáfa þar sem farið er ítarlega yfir sögu sveitarinnar í máli, myndum og músík á fjórum geisladiskum og þremur mynddiskum.
Saga Sálarinnar hans Jóns míns er fyrir margra hluta sakir stórmerkileg. Hér höfum við hljómsveit sem hóf starfssemi sem hefðbundin skemmtisveit en þróaðist svo fljótlega út í metnaðarfulla poppsveit sem dældi út ægigrípandi, en aldrei ódýrum, slögurum linnulaust yfir land og lýð. Sveitinni tókst á tiltölulega stuttum tíma að byggja upp gott safn af frumsömdu, alíslensku poppi og hefur vegna þessa setið traust á stalli í augum yngri tónlistarmanna sem þreyta sömu list
Upp- og niðursveiflur vantar þá heldur ekki í tilfelli Sálarinnar og dramatíkin er aldrei langt undan eins og sannri stórsveit sæmir. Sálin hefur þannig átt blómaskeið, þurrkatíð og endurreisnartímabil.
Sálin hefur ávallt búið yfir auðheyranlegri þörf fyrir að reyna sig og sanna; taka áhættu og fara fram að hengiflugi. Líklegt má telja að þessi djörfung, þetta hugarfar, hafi áskapað henni þá stöðu sem hún nýtur í dag.
Sálin verður tekin traustum poppfræðilegum tökum á menningarsíðum Morgunblaðsins, nú á sunnudaginn.